Atferli sauðfjár í sumarhögum

Markmið rannsóknarinnar er að gefa innsýn í atferli sauðfjár í sumarhögum. meðal þeirra rannsóknarspurningar sem verkefninu er ætlað að svara eru:  

  1. Í hvers konar land sækir sauðfé helst? 
  2. Hversu stórt svæði nýtir hver kind? 
  3. Ræðst beitaratferli sauðfjár af þáttum eins og ástandi lands? 
  4. Er atferli sauðfjár breytilegt yfir beitartímann?

Vorið 2018 var farið í samstarf við 11 bændur sem dreifðir voru um landið og hverjum þeirra voru afhend 10 staðsetningartæki fyrir sauðfé. Verkefnið hefur haldið áfram öll sumur síðan, í samstarfi við u.þ.b 10 bændur ár hvert. 

Áður en fé er sleppt á afrétti velja bændur af handahófi 10 lambær til að bera staðsetningartæki. Lambærnar þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði: 1) ekki vera náskyldar (mæðgur, systur), 2) vera tvílembdar, 3) vera 3-6 vetra og heilbrigðar og 4) helst ekki vera forustufé eða annað fé sem þekkt er fyrir að haga sér óvanalega. Einnig er æskilegt að kynjahlutfall lamba sé sem jafnast. 

Staðsetningartækin safna upplýsingum um staðsetningu ánna á sex klukkutíma fresti og senda þær í gegnum farsímanet (3g, 4g) inn á veraldarvefinn, þar sem hægt er að fylgjast með ferðum  ánna (í rauntíma sendinga) á lokuðu vefsvæði sem þátttakendur hafa aðgang að.  

 

Í lok hvers beitartímabils er unnin skýrsla til hvers bónda út frá gögnunum. Í skýrslunni er tekið saman yfirlit um staðsetningu allra lambáa frá viðkomandi bæ og sýnt á gróðurkorti auk upplýsinga um fjölda mælinga frá hverri kind.