Markmið

 

Markmið Grólindar er tvíþætt

Skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins

Fyrra markmið verkefnisins snýr að mati og vöktun á ástandi gróður– og jarðvegsauðlinda landsins. Á árunum 2017-2019 verður aðferðafræðin þróuð en vöktunin mun hefjast sumarið 2019. Skipulag hennar verður unnið í samstarfi við aðrar stofnanir sem vakta náttúru Íslands, til að tryggja að verkefni skarist ekki og til að samræma mælingar svo unnt sé að samnýta niðurstöður. Unnið er að gerð yfirlits yfir þau vöktunarverkefni sem nú eru í gangi.

Vöktunarkerfi þarf að vera skilvirkt og hagkvæmt, bæði m.t.t. beins kostnaðar og einnig þeirra upplýsinga sem það skilar. Útfærsla vöktunarinnar þarf að vera með þeim hætti að hún sé auðskiljanleg og jafnframt sveigjanleg þannig að hægt sé að laga hana að nýjustu tækni þegar svo ber undir, eins og t.a.m. notkun snjalltækja. Breytingar á vistkerfum og auðlindum verða á mismunandi kvörðum tíma og rúms, allt frá stórum kvörðum þar sem t.d. tegundabreytingar verða yfir í breytingar gróðursamfélaga eða landslags vegna landhnignunar eða rofs sem gerast á mun minni landfræðilegum mælikvarða. Vöktun þarf að ná til þessara mismunandi kvarða svo gögn fáist um breytingar gróður- og jarðvegsauðlinda á sem víðustu sviði. Þar sem hér er verið að vakta mjög stór svæði er nauðsynlegt að flokka land í tiltölulega einsleitar einingar svo unnt sé að gera úrvinnslu gagna markvissari. Mælibreytur vöktunarinnar þurfa að gefa upplýsingar um ástand vistkerfa (þ.m.t. virkni þeirra) og álag á kerfin. Þær þurfa að vera mælanlegar, sannreynanlegar og samanburðarhæfar. Það síðastnefnda er mjög mikilvægt til að hægt sé að samtúlka niðurstöður mismunandi mælinga á mismunandi kvörðum.

Heildaryfirlit um stöðu gróður- og jarðvegsauðlinda verður fengið með samþættingu á fjarkönnunargögnum, upplýsingaöflun á jörðu niðri í samstarfi við hagaðila og neti af mælireitum. Eftirfarandi gögn verða notuð:

(a) gervitunglagögn

(b) kortlagning og loftmyndir af landslagsheildum

(c) nákvæmar loftmyndir teknar með flygildum (drónum)

(d) mæligögn fengin á mælireitum/sniðum.

Gögn sem nú þegar liggja fyrir verða jafnframt nýtt eins og kostur er. Með þessari nálgun í gagnasöfnun er tryggt að upplýsingar nýtist til að túlka niðurstöður á milli mismunandi kvarða og bæti þannig upplýsingagildi annarra gagna. Jafnframt býður þessi fjölbreytta nálgun í gagnaöflun upp á virkt samstarf við hagaðila, en gert er ráð fyrir að þeir taki virkan þátt í gagnaöflun t.d. með einföldum athugum á hverju ári og ljósmyndun af fyrirfram skilgreindum reitum.

Verið er að þróa aðferðafræði vöktunarinnar. Það felur m.a. í sér að ákvarða mælibreytur sem endurspegla a.m.k. einn af eftirtöldum þáttum fyrir viðkomandi vistkerfi: Virkni, uppbyggingu, þanþol og viðnám. Einnig er hafin vinna við skipulag gagnavinnslu og gagnageymslu. Við langtímaverkefni er mikilvægt að tryggja að þau gögn sem safnast, séu geymd og skráð á öruggan hátt svo að þau séu aðgengileg og nothæf til framtíðar. Jafnframt þarf að tryggja að almenningur hafi greiðan aðgang að þessum upplýsingum.

Þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda landsins

Annað af meginmarkmiðum GróLindar er að þróa sjálfbærnivísa fyrir landnýtingu. Við þróun einfaldra vísa til að meta sjálfbærni landnýtingar er nauðsynlegt að hafa skilning á áhrifum mismunandi landnýtingar á uppbyggingu og virkni vistkerfa. Í verkefninu er stefnt að því að auka þennan skilning með því að;

1) vakta gróður- og jarðvegsauðlindir

2) safna saman þeirri þekkingu sem þegar er til staðar

3) auka þekkingu með rannsóknum.

Þegar eru hafnar rannsóknir til að m.a. skoða beitaratferli sauðfjár í sumarhögum og fylgjast með því hvort gróður þróist með mismunandi hætti á beittu og friðuðu land.