Fundir GróLindar 2019

13.05.2019. GróLind efndi til kynningar- og samráðsfunda um allt land í mars og apríl síðastliðnum. Markmið fundanna var að kynna GróLindarverkefnið, tilurð þess, markmið og helstu verkþætti og að fá innsýn og hugmyndir fundargesta til að nýta við frekari þróun þess. Fundirnir voru haldnir á 17 stöðum á landinu (sjá kort hér að ofan). Aðsókn á fundina var með ágætum, mismikil þó eftir landssvæðum en alls mættu 235 manns á fundina.

Starfsfólk Landgræðslunnar er almennt ánægt með fundina og þann áhuga sem fundargestir sýndu verkefninu. Sköpuðust góðar umræður sem munu auka gildi og vægi verkefnisins, sérstaklega vorum við ánægð með þann áhuga sem fundargestir sýndu í að taka þátt í mælingum GróLindar. Er það einlæg von aðstandenda GróLindar að þar hafi tónninn verði sleginn fyrir löngu og farsælu samstarfi við vöktun á gróður- og jarðvegsauðlindum landsins.

Vill starfsfólk landgræðslunnar þakka öllum þeim sem mættu á fundina fyrir komuna, fyrir þá sem sáu sér ekki fært að mæta mun upptaka af fyrirlestrinum birtast á vef GróLindar á næstunni.