Ný grein um áhrif nýtingar á gróður- og jarðvegsauðlindirnar

20.04.2018 / Sjálfbær stjórnun landnýtingar krefst góðrar þekkingar á starfsemi vistkerfanna og hvaða þættir knýja virkni þeirra. Sem dæmi má taka að víða á Íslandi hefur átt sér stað umfangsmikil gróður- og jarðvegseyðing sem afleiðing af samþættum áhrifum náttúrlegra ferla á borð við loftslag og eldvirkni auk áhrifa mannsins frá landnámi með skógarhöggi og búfjárbeit. Það er því lykilatriði fyrir árangursríka stjórnun að greina þá þætti sem knýja fram vistkerfisbreytingar, einkum í ljósi þess að við eigum miserfitt með að hafa áhrif á þessa þætti.

Hugmyndafræðileg líkön eru oft gagnleg við að greina þá þekkingu sem er til staðar um viðkomandi vistkerfi og það hvaða þættir valda breytingum á kerfunum. Í rannsókn sem birtist nýlega í tímaritinu Land degredation and development var notast við svonefnd ástands-og-umskipta líkön (state-and-trasition) til að lýsa vistkerfisbreytingum á Íslandi á þremur tímaskeiðum sem einkennast af mismiklum áhrifum mannsins, allt frá tímabilinu fyrir landnám og fram á okkar daga. Líkönin sýna mengi og ástand mögulegra vistkerfa, umskipti og þröskulda þeirra á milli og breytingar á þeim í tíma.
Niðurstöðurnar benda til þess að með sterkari áhrifum mannsins verða þessi líkön flóknari. Notuð voru dæmi frá miðhálendi Íslands til að sýna hvernig beita má líkönunum til að spá fyrir um áhrif mismunandi landnotkunar. Þessi nálgun getur reynst gagnleg til að greina hvar okkur skortir frekari þekkingu og til að styðja við nýtingarstjórnun og vöktunarverkefni, með því að greina raunhæf markmið fyrir verndun og endurheimt.

Smellið hér til að lesa greinina.