Markmið GróLindar er að fá mat á ástandi gróður- og jarðvegsauðlindarinnar með því að meta virkni vistkerfa á hverjum tíma. Þeim þáttum sem skipta mestu máli varðandi ástand lands er skipt í þrjá meginflokka:
1. Stöðugleiki jarðvegs og landsvæða (e. soil and site stability): Geta vistkerfisins til að hindra fok og tap á jarðvegi vegna vinds, vatns og annars rasks og jafnframt geta þess til að jafna sig ef tir rask. Þessi þáttur er tengdur þanþoli og viðnámi vistkerfisins.
2. Vatnshagur (e. hydrological functions/infiltration): Geta vistkerfisins til að fanga, geyma og miðla vatni sem berst vegna úrkomu, hlánunar og afrennslis. Þessi þáttur endurspeglar vel virkni vatnshringrásarinnar.
3. Virkni náttúrulegra ferla (e. biotic integrity): Geta vistkerfisins til að styðja við náttúrulega ferla, eins og hringrás næringarefna og orkuflæði (energy capture and cycling/nutrient cycling), og viðhalda þeim. Tengist einnig viðnámi og þanþoli vistkerfa.
Til þess að meta þessa þætti og kortleggja ástand landsins voru settir úr vöktunarreitir (e. monitoring plots) um allt land á árunum 2019-2024. Reitirnir eru rúmlega 900 talsins og dreifast um öll þurrlendisvistkerfi landsins, frá fjöru til fjallatinda. Í hverjum reit eru gerðar ýmsar mælingar á gróðri og jarðvegi og mælingarnar eru endurteknar á 5 ára fresti. Á árunum 2019-2024 voru fyrsu mælingar í reitum framkvæmdar af sérfræðingum Landgræðslunnar og síðar Lands og skógar, en háskólanemar í ýmsum náttúrufræðum í sumarstarfi hjá stofnuninni sinntu bróðurhluta mælinganna, með leiðsögn fastráðinna sérfræðinga. Árið 2025 hófust endurmælingar í fyrsu reitunum en þær voru framkvæmdar af fastráðnum sérfræðingum GróLindar og sérfræðingum Náttúrustofu Austurlands, Náttúrustofu Suðausturlands og Náttúrustofu Norðurlands vestra, í þeim tilgangi að draga úr ferðalögum frá höfuðborgarsvæðinu og að efla starf náttúrustofanna.
Á mæliborðinu okkar er hægt að skoða reitina nánar (ath mælaborðið er í vinnslu og unnið er að því að setja inn frekari upplýsingar úr reitum, s.s. fleiri mælingar og ljósmyndir)
Í aðferðafræðiritinu má lesa nánar um uppsetningu reitanna, val á mælibreytum og aðferðafræði mælinga í reit.

