Í byrjun nóvember birtist greinin UAV Data Upscaling for Soil Erosion Monitoring in High-Latitude Rangelands, Northeastern Iceland í íslenska vísindatímaritinu Icelandic Agricultural and Environmental Sciences (áður einnig þekkt sem Búvísindi).
Í greininni var stuðst við gögn GróLindar til að skoða möguleika þess að nota flygildi (UAV, Unoccupied Aerial Vehicle) til að meta landupplýsingar og kortleggja t.d. jarðvegsrof. Bryndís Marteinsdóttir og Rán Finnsdóttir eru meðhöfundar. Íslenskur útdráttur er eftirfarandi:
Uppskölun fjarkönnunargagna frá flygildum til að fylgjast með jarðvegsrofi á norð austur hálendi Íslands.
Jarðvegsrof er eitt af stóru umhverfisvandamálum á Íslandi í dag og hefur hraði og alvarleiki jarðvegsrofs sterk tengsl við gróðurþekju. Núverandi aðferðir við kortlagningu og vöktun jarðvegsrofs á Íslandi eru kostnaðarsamar og erfitt er að beita þeim reglulega á stór svæði. Fjarkönnun með gervitunglamyndum getur veitt heildstæða mynd af ástandi gróðurs sem getur nýst við umhverfisvöktun. Hins vegar getur verið erfitt að greina smágerðar rofmyndir, eins og rofdíla, í venjulegri upplausn gervitunglamynda (10-30 m). Í þessari rannsókn er samþætt notkun flygilda (e. Unoccupied Aerial Vehicle, UAV), Sentinel-2 gervitunglagagna og vettvangsgagna skoðuð sem möguleiki til að brúa bilið á milli athugana á jörðu niðri og gervitunglaathugana. Landþekja sex svæða var kortlögð í hárri upplausn (< 5 cm) með flygildi og gáfu niðurstöðurnar góða heildarnákvæmni (e. accuracy, >90%) samanborið við vettvangsmælingar. Þessar upplýsingar voru síðan skalaðar upp fyrir gervitunglagögn með aðhvarfslíkani (e. regression model) til að meta þekju óvarins jarðvegs, með góðum árangri (R2 = 0.81). Með notkun gagna úr landvöktunarkerfinu GróLind voru rofflokkar svo skilgreindir og kortlagðir út frá þekju óvarins jarðvegs. Rannsóknin sýnir fram á möguleikann á notkun fjölkvarða-fjarkönnunar til að meta landupplýsingar út frá myndeiningum og að sjálfvirknivæða kortlagningu jarðvegsrofs.
Recent Comments