Sumarið 2020

09.10.2020. Í sumar, frá júní fram í september, voru 150 vöktunarreitir GróLindar lagðir út víðsvegar um landið. Í hverri viku voru að jafnaði tvö þriggja manna teymi að störfum. Í heild komu 13 starfsmenn að vettvangsvinnunni í sumar, níu sumarstarfsmenn auk annars starfsfólks Landgræðslunnar.

Vettvangsvinnan gekk afbragðs vel og því má að miklu leyti þakka skapgóðu og afkastamiklu sumarstarfsfólki sem vann sleitulaust allar 11 vikurnar. Þar að auki fylgdi góða veðrið teymunum nær alltaf eftir, en þess má geta að fullkomið veður fyrir vettvangsvinnu er vind- og regnlaust að mestu en ekki of heitt, 12-14°C – kannski eilítið kaldara en landinn óskar sér alla jafna yfir sumartímann. Ýmis dýr urðu á vegi okkar í og við vöktunarreiti, þ.á.m. kýr, kindur, hestar, rjúpur, hreindýr, árásargjarnir skúmar og kelnir hundar. Þar að auki heimsóttum við marga fallega og áhugaverða staði, s.s. Skaftafell, Fimmvörðuháls, Fjallabaksleiðir, Möðrudalsöræfi, Dynjandisheiði, Arnarvatnsheiði og ótal fleiri.

Þeir reitir sem settir voru út í sumar eru hluti af vöktunarreitarkerfi GróLindar. Kerfið mun telja um 1000 reiti þegar uppsetningu þeirra líkur 2024. Staðsetning reitanna er valin með tilviljunarkenndum hætti  að uppfylltum nokkrum skilyrðum s.s. tengdum aðgengi í reitina og því að hlutfall reita í hverri vistgerð endurspeglar algengi vistgerðarinnar á landsvísu.  Auk þess eru vöktunarreitir ekki lagðir út í manngerðu landi s.s. framræstum og/eða ræktuðum túnum eða skógræktarsvæði. Þar sem staðsetning vöktunarreita er í einkalandi var haft samband við landeigendur og rætt við þá um útsetningu reitanna. Viðtökurnar voru oftast góðar og var gaman að heyra áhuga landeigenda á verkefninu.

Í hverjum reit voru metnir þættir sem gefa til kynna hvert ástand gróður- og jarðvegsauðlindarinnar er. Þessir þættir eru t.d. jarðvegsgerð, jarðvegsdýpt, gróðurhæð, gróðurþekja, tegundasamsetning, jarðvegsrof og hrjúfleiki yfirborðs.

Unnið verður að uppsetningu vöktunarreitanna næstu sumur og er áætlað að setja um 200 vöktunarreiti út á ári. Áætlað er að endurmæla hvern reit á 5 ára fresti sem hluti af vöktun á gróður- og jarðvegsauðlindum landsins.